top of page
bragi01.jpg

Ég heiti Bragi Bjarnason og gef kost á mér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem fer fram 19.mars næstkomandi.

 

Ég er 40 ára, giftur Eygló Hansdóttur, íþróttafræðingi og saman eigum við þrjú börn, Bjarna Dag fæddan 2007, Hildi Evu fædda 2011 og Elmar Andra fæddan 2016. Við fjölskyldan höfum verið búsett á Selfossi síðan 2005 en Eygló er uppalin Selfyssingur og ég er úr sveitinni rétt við Hellu á Rangárvöllum þar sem ég ólst upp á sveitabænum Selalæk. 

 

Ég er menntaður íþróttafræðingur, með MBA gráðu frá Háskóla Íslands, frá árinu 2020 og hef starfað sem stjórnandi hjá Sveitarfélaginu Árborg í 14 ár, nú sem deildastjóri frístunda- og menningardeildar. Á þessum tíma hef ég unnið að íþrótta-, frístunda-, forvarna-, viðburða-, markaðs- og ferðaþjónustumálum fyrir sveitarfélagið og vil nýta þá miklu þekkingu sem ég hef til áframhaldandi vinnu fyrir samfélagið á breiðari vettvangi.

 

Ég hef í gegnum tíðina komið að fjölbreyttum störfum, bæði með námi og eftir. Má þar nefna framkvæmdastjóri íþróttafélags, smiður, málari, íþróttakennari og þjálfað alla aldurshópa í íþróttum og líkamsrækt.

 

Ég hef verið svo lánsamur að fá tækifæri til að vinna með fjölbreyttum hópi í hinum ýmsu nefndarstörfum og sit í dag í skólanefnd Menntaskólans á Laugarvatni, Samráðshópi um stefnumótun í íþróttamálum á Íslandi og sem varamaður í Íþróttanefnd ríkisins. Áður hef ég setið í nemendaráðum, stúdentaráði og stjórn félags íþrótta-, æskulýðs-, tómstundafulltrúa á Íslandi frá 2011, þar af sem formaður 2016-2020. Ekki má gleyma foreldrastarfinu þar sem ég hef reynt að aðstoða eftir bestu getu í foreldraráðum tengt frístundastarfi barnanna.

 

„Það er að mínu mati frábært að ala upp börn í Árborg og vil ég leggja allan minn metnað í að það verði áfram þannig og við náum frekar að gera enn betur“

 

Það hefur blundað í mér í nokkurn tíma að taka skrefið inn á pólitíska sviðið og vill ég gera það af fullum krafti og einlægni. Ég sækist eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins, þar sem ég tel að kraftar mínir nýtist til að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka fyrir samfélagið. Öflugt lið þar sem allir hafa rödd og stuðning til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. Þar tel ég að reynsla mín úr daglegum störfum, þjálfun og félagsmálum nýtist vel.

bottom of page