top of page
  • Writer's pictureBragi Bjarnason

Ábyrg fjármálastjórn - lægri gjöld

“Það þarf að leggja ríka áherslu á öfluga og ábyrga fjármálastjórn sem til framtíðar gefur aukin tækifæri til að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki.”



Sveitarfélagið Árborg hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár en það kallar á mikla innviðauppbyggingu. Þar er bæði um að ræða framkvæmdir mannvirkja, vatnsveitu og fráveitu ásamt almennum rekstri sveitarfélagsins. Nú þegar við vonumst til að Covid-19 sé á undanhaldi og lífið fari í eðlilegri skorður er mikilvægt að leggja skýra stefnu til framtíðar í rekstri sveitarfélagsins. Markmiðið kjörinna fulltrúa í samstarfi við starfsmenn sveitarfélagsins og íbúa þarf að skila sér í minni skuldasöfnun svo reksturinn standi undir þeirri þjónustu sem er fyrir íbúa og fyrirtæki. Það þýðir að við verðum að endurskipuleggja og forgangsraða framkvæmdum til að nýta fjármunina sem best enn í því felast líka mörg tækifæri.


Sveitarfélagið Árborg á að vera í sterku leiðandi hlutverki með öðrum sveitarfélögum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í að leiðrétta þátttöku ríkissjóðs í rekstri mikilvægra málaflokka sem sveitarfélögin hafa tekið við frá hinu opinbera og sjá um í dag. Þar má helst nefna málefni einstaklinga með fötlun, þjónusta við eldri borgara og rekstur leik- og grunnskóla. Það getur ekki gengið til lengri tíma að færa verkefni yfir á nýjan aðila en ætla ekki nægjanlegt fjármagn svo þjónustan standi undir sér. Ljóst er að breytinga er þörf í þessum efnum.


Ef við náum í sameiningu tökum á þessum grunnþáttum í fjármálastjórn sveitarfélagsins og breikkun tekjustofnsins er komið tækifæri til að lækka álögur líkt og fasteigna- og/eða leikskólagjöld sem skilar sér beint í auknum ráðstöfunartekjum heimila og fyrirtækja.


Viltu ræða málin frekar?

Þar sem stutt er í prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem fer fram laugardaginn 19.mars nk. vil ég nýta tímann vel og hitta sem flest fyrirtæki og íbúa sveitarfélagsins. Það er því velkomið að senda erindi á bragibjarna1@gmail.com og óska eftir heimsókn til að spjalla um samfélagið okkar og hvernig við getum í sameiningu gert það enn betra.


Bragi Bjarnason

Frambjóðandi í 1.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg

bottom of page