top of page
  • Writer's pictureBragi Bjarnason

Spennandi verkefni framundan í Árborg

Það má líklega segja að það séu eðlilega skrítnar tilfinningar hjá bæjarfulltrúum eftir hverjar kosningar þegar verið er að mynda bæjarstjórn og standa í þeim sporum að fá tækifæri til að stýra sveitarfélaginu sem þú býrð í. Við í D-listanum í Árborg erum auðmjúk í þeirri aðstöðu ásamt öðrum bæjarfulltrúum að stýra einu mest spennandi sveitarfélagi landsins sem hefur mikla vaxtarmöguleika og tækifæri en er um leið í krefjandi rekstrarumhverfi. Það er tilhlökkun núna þegar allt er komið af stað eftir sumarið að vinna með kraftmiklu starfsfólki sveitarfélagsins, íbúum og bæjarfulltrúum allra flokka að málefnum Sveitarfélagsins Árborgar.




Fyrstu mánuðirnir

Hugurinn ber okkur hálfa leið og það er mikilvægt að leggja upp framtíðarsýnina svo allir viti hvert sé verið að stefna. Það auðveldar ákvarðanatökur á öllum stöðum sem leiða okkur í sömu átt að markmiðinu og meiri árangri.

Bæjarfulltrúar og nefndarfólk hafa fyrstu mánuðina verið að koma sér inn í fjölbreytt verkefni sveitarfélagsins, fá kynningu á starfsemi og nefndarstörfum og setja sig inn í mál sem biðu afgreiðslu. Samstarf í nefndum og bæjarstjórn hefur að mínu mati verið mjög gott og vil ég þakka bæjarfulltrúum og nefndarmönnum fyrir góða nálgun á verkefnin. Þar má nefna staðfestingu á nýju aðalskipulagi, skipulagsbreytingar, útboð á öðrum áfanga Stekkjaskóla, framkvæmdaleyfi fyrir hreinsistöð á Selfossi ásamt öðrum verkefnum tengd rekstri og þjónustu sveitarfélagsins. Margt góð og mikilvæg verkefni sem hafa verið lengi í undirbúningi og koma til framkvæmda núna.


Áfram gakk!

Það eru spennandi verkefni framundan sem munu gefa sveitarfélaginu færi á að bæta þjónustu og auka hagræðingu til framtíðar. Það er fyrirséð að uppbygging mun halda áfram í Sveitarfélaginu Árborg og mikilvægt að innviðir fylgi eftir í takti við áætlanir. Starfshópar um framtíðaruppbyggingu leikskóla hefur hafið störf og er honum m.a. ætlað að koma með tillögur um hvernig megi afleggja eldri bráðabirgðalausnir við leikskóla og forgangsraða uppbyggingu til framtíðar. Mun hópurinn skila tillögum til bæjarstjórnar strax í haust. Sömuleiðis er búið að skipa í starfshóp um uppbyggingu skólahúsnæðis á Eyrarbakka og til stendur að hefja undirbúning að nýjum grunnskóla á Selfossi. Margt að gerast í skólamálunum og mikilvægt að gera áætlanir til framtíðar.

Orkuöflun er ein af undirstöðum þess að hægt sé að halda áfram að byggja upp og er það forgangsmál bæjarstjórnar að afla réttinda til að leita og vinna heitt vatn á nýjum svæðum ásamt því að efla samstarf við önnur orkufyrirtæki. Nægt framboð er af heitu vatni í dag en þegar tekið er tillit til áætlaðrar uppbyggingar næstu árin verður að efla og bæta við orkuöflun Selfossveitna til að tryggja örugga afhendingu til allra neytenda í sveitarfélaginu. Áhugi á svæðinu er mikill, bæði vegna íbúðarhúsnæðis og hjá fyrirtækjum sem vilja byggja upp eða hefja starfsemi í Árborg.


Fjármálaáætlun til næstu 10 ára

Til að tryggja betri yfirsýn bæjarstjórnar og marka skýra stefnu í fjármálum sveitarfélagsins er hafið samstarf við KPMG um gerð fjármálaáætlunar til næstu 10 ára. Markmiðið er að efla alla áætlunargerð, skapa betri yfirsýn um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og leggja upp þau markmið sem þarf til að koma rekstri sveitarfélagsins í jafnvægi og á endanum réttu megin við núllið.

Bæjarstjórn Árborgar getur þá við vinnu fjárhagsáætlunar hvers árs, tekið ákvarðanir miðað við bestu mögulegu upplýsingar hverju sinni en eðlilega er fjármálaáætlunin síðan endurskoðuð reglulega í takti við íbúaþróun, verðbólgu og aðra áhrifaþætti.

Verkefni sveitarfélagsins eru fjölbreytt og mikilvægt að íbúar séu upplýstir um hvað sé helst á döfinni. Markmið undirritaðs er að upplýsa íbúa reglulega og er þetta fyrsti pistill í þá átt.


Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar


bottom of page