top of page
Writer's pictureBragi Bjarnason

Bragi Bjarnason gefur kost á sér í 1.sæti


Kæru vinir, fjölskylda og íbúar í Árborg


Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér að leiða framboð Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg vegna komandi bæjarstjórnarkosninga í vor. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er prófkjör flokksins sem fer fram 19. mars nk. og óska ég eftir stuðningi í 1. sæti listans.


Ég er 40 ára, eiginmaður og faðir þriggja barna og verið svo lánsamur að fá að ala þau upp hérna í Árborg. Ég er menntaður íþróttafræðingur, með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og hef starfað sem stjórnandi hjá Sveitarfélaginu Árborg í 14 ár, nú sem deildastjóri frístunda- og menningardeildar. Á þessum tíma hef ég unnið að íþrótta-, frístunda-, forvarna-, viðburða-, markaðs- og ferðaþjónustumálum fyrir sveitarfélagið og vil nýta þá miklu þekkingu sem ég hef til áframhaldandi vinnu fyrir samfélagið á breiðari vettvangi.


Ég legg áherslu á ábyrgan rekstur sveitarfélagsins þar sem öflug fjármálastjórn og forgangsröðun skapar tækifæri og forsendur til að veita okkur íbúum betri þjónustu til framtíðar. Samhliða þeirri íbúafjölgun sem hefur verið í Árborg undanfarin ár þarf að fjölga atvinnutækifærum svo íbúar hafi fleiri valmöguleika um störf í nærsamfélaginu. Þar vil ég leggja mín lóð á vogarskálarnar svo samfélagið okkar geti haldið áfram að vaxa en á þeim forsendum að inniviðir, líkt og leik- og grunnskólar, hitaveita og önnur mikilvæg þjónustu sé tilbúin undir slíkt.


Tekjur hafa ekki fylgt þeim verkefnum sem færð hafa verið til sveitarfélaga frá hinu opinbera og vil ég vera sterk rödd Sveitarfélagsins Árborgar í samstarfi við önnur sveitarfélög um að hið opinbera leiðrétti kostnaðarþátttöku sína í verkefnum líkt og málaflokki fatlaðra og leik- og grunnskóla. Það er hagsmunamál sem snertir okkur öll að halda góðri þjónustu í nærsamfélaginu.


Sem foreldri þriggja barna hef ég kynnst því öfluga starfi sem er í leik- og grunnskólum og frístundastarfinu í Árborg. Það er að mínu mati frábært að ala upp börn í Sveitarfélaginu Árborg og vil ég leggja allan minn metnað í að það verði áfram eftirsóknarvert að búa í sveitarfélaginu.


Það hefur blundað í mér í nokkurn tíma að taka skrefið inn á hið pólitíska svið og vill ég gera það af fullum krafti og einlægni. Ég sækist eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins þar sem ég tel að kraftar mínir nýtist til að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka fyrir samfélagið. Öflugt lið þar sem allir hafa rödd og stuðning til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. Þar tel ég að reynsla mín úr daglegum störfum, þjálfun og félagsmálum nýtist vel.


Ég vonast eftir því að eiga gott samtal við alla áhugasama á næstu vikum og er hægt að fylgjast með á www.bragibjarna.is, „Bragi í 1.sæti“ á Facebook og #bragibjarnason á Instagram.


Vil að endingu hvetja einstaklinga sem hafa áhuga að starfa á þessum vettvangi að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem fram fer þann 19 mars.

Comentarios


bottom of page