top of page
Writer's pictureBragi Bjarnason

Það á að vera gott að eldast í Árborg

“Við sem samfélag eigum að halda vel utan um málefni eldri borgara og auka möguleika til heilsueflingar og þjónustu í nærsamfélaginu.”



Með auknum lífsgæðum undanfarna áratugi eigum við raunhæfari möguleika á að halda betri heilsu þegar við eldumst. Ég tel mikilvægt að sveitarfélagið veiti góða þjónustu fyrir þennan aldurshóp og sé í samstarfi við félög eldri borgara til að sú þjónusta sé markviss og skilvirk. Ein af lykiláherslunum eru góðar forvarnir sem bæta bæði líkamlega og andlega heilsu. Það gefur okkur öllum aukin þrótt, möguleika til að búa sem lengst á eigin heimili og vera virkari í samfélaginu. Góðar forvarnaraðgerðir á öllum aldursskeiðum geta nefnilega skilað mikilli efnahagslegri hagræðingu til framtíðar.


Hér í Sveitarfélaginu Árborg hef ég ásamt samstarfsfólki fengið að kynnast og koma að því frábæra starfi sem er í gangi hjá félögum eldri borgara og vinna að aukinni heilsueflingu fyrir aldurshópinn 60+. Nú eru í gangi tveir hópar í heilsueflingu á Selfossi og einn á Eyrarbakka sem hafa farið vel af stað í vetur. Félög eldri borgara í Árborg hafa um leið, þrátt fyrir heimsfaraldur staðið fyrir öflugu félagsstarfi sem mikilvægt er að styðja við áfram svo það geti vaxið enn frekar núna þegar slakar á sóttvarnatakmörkunum.


Þetta eru meðal þeirra verkefna sem við eigum að efla enn frekar ásamt því að bæta inn aukinni fræðslu og efla aðra þætti í sveitarfélaginu líkt og göngustíga, útivistarsvæði og æfingatæki utandyra sem nýtast bæði eldri borgurum og öðrum íbúum með það að markmiði að fleiri geti tekið þátt í góðu samfélagi.


Viltu ræða málin frekar?

Þar sem stutt er í prófkjörið lau. 19.mars vil ég nýta tímann vel og reyna að hitta sem flest fyrirtæki og íbúa. Það er því velkomið að senda á bragibjarna1@gmail.com og óska eftir heimsókn til að spjalla um samfélagið okkar og hvernig við getum í sameiningu gert það enn betra.


Bragi Bjarnason Frambjóðandi í 1.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg

Comments


bottom of page